Need A Player Agent


Fylgdu Illverk á samfélagsmiðlum!

Heil og sæl, í þessari fyrstu færslu minni hef ég ákveðið að fjalla örstutt um það merkilega fyrirbæri sem minnið er. En í tilefni af nýjum þætti Illverks um Guðmundar og Geirfinns málið fannst mér tilvalið að setja saman smá örfróðleik um minnið og falskar játningar. 

Í gegnum tíðina hef ég oftar en einu sinni rifjað upp atburð og lent í rökæðum við aðra því okkur bar ekki saman um hvernig eitthvað hafi verið, í þessi skipti hef ég þó staðið fast á mínu því ég ég veit hvernig þetta var, ég man það!. 

Flest höldum við að minningar okkar séu mjög nákvæmar, en það áhugaverða við minni er að það er ekkert rosalega áreiðanlegt. Minni er flókið ferli þar sem margt getur farið úrskeiðis, þær upplýsingar í umhverfinu sem við veitum athygli eru kóðaðar inn í skammtímaminni og geymdar þar í stuttan tíma. Þar sem skammtímaminnið hefur takmarkað geymslurými tapast alltaf einhverjar upplýsingar en þær upplýsingar sem verða eftir í skammtímaminni eru færðar þaðan og yfir í langtímaminni þar sem þær eru geymdar til lengri tíma. Það er því til að mynda líklegt að tveir einstaklingar eigi ólíkar minningar af sama atburðinum byggt á því hvað var skráð, hverju viðkomandi tók eftir í umhverfinu. Rannsóknir á þróun minnis hafa skoðað hvernig atburðir eru upphaflega, hvernig þeir eru túlkaðir í heila fólks og hvernig upplýsingarnar eru seinna sóttar til að segja frá þeim, en endurheimt minninga er sjaldan fullkomin og margvíslegir þættir geta haft áhrif á endurheimt minninga. 

Sefnæmi (e. suggestability) er talið vera mikilvægt fyrirbæri þegar kemur að fölskum játningum. Sefnæmi er vítt hugtak sem vísar til þess hvernig hægt er að hafa áhrif á minningar af atburðum með margvíslegum félagslegum og sálfræðilegum þáttum, minningar geta orðið afbakaðar eða nýjar minningar orðið til. Leiðandi spurningar, upplýsingar eða athugasemdir frá öðrum geta litað minningar með þeim afleiðingum að miningarnar verði ónákvæmar, án þess að viðkomandi átti sig á því. Sefnæmi orsakast oft af yfirheyrslum, en einangrun, alvarlegar svefntruflanir og mikið álag við yfirheyrslur eru þættir sem talið er að veikji mótstöðu viðkomandi og auka líkur á sefnæmi og undanlátssemi. Þó er talið að eðli yfirheyrsla, lengd þeirra og tímasetning geti haft meiri áhrif en einangrunarvist, en einangrunarvíst er þó talin geta aukið álag og ýtt undir veikleika sakbornings sem eykur verulega hættuna á röngum framburði.  

Þá er fleiri þættir en sefnmæni sem geta haft áhrif á minni sakborninga en þeir geta þróað með sér svokallað minnisvafaheilkenni (e. memory distrust syndrome). En talið er að félagsleg einangrun og langar yfirheyrslur geti í sumum tilfellum grafið undan trausti sakbornings á eigin minni og jafnvel leitt til þess að sakborningur fari að trúa því að hann sé sekur um glæp sem hann hefur ekki framið.

Falskar játningar falla í raun í þrjá megin flokka:

1. Sjálfviljugar falskar játningar (e. voluntary false confessions) þar sem sakborningur hefur ekki verið beittur þrýstingi að játa. 

2. Falskar játningar þvingaðar af undanlátssemi (e. coerced-compliant false confessions) þar sem sakborningur lætur undan þrýstingi frá lögreglu, vegna yfirheyrslu eða gæsluvarðahalds og gefur falska játningu, gegn betri vitund sinni. 

3. Falskar játningar þvingaðar af sannfæringu (e. coerced internalised false confessions) þar sem sakborningur er beittur þrýstingi og honum talin trú um að hann sé sekur um afbrot þrátt fyrir að vera saklaus og sakborningurinn samþykkir sekt sína þrátt fyrir að muna ekki eftir að hafa framið brotið. Þessi þriðja tegund falskra játninga er í raun nátengd hugmyndinni um minnisvafaheilkenni.

Það eru hinsvegar engin sálfræðileg próf sem geta skorið úr um hvort játning sé í raun sönn eða ekki en helstu merki falskra játninga eru talin vera:

•           blint traust á þann sem yfirheyrir viðkomandi,  

•           metnaður og vilji til að aðstoða lögreglu

•           sektarkennd vegna þess að viðkomandi viðurkennir og trúir því að hann sé sekur

•           sannfærandi yfirheyrslur

•           hægt niðurbrot á raunveruleikamati sakbornings

•           vantraust sakbornings á eigin minni

•           frjótt ímyndunarafl

•           óljósar lýsingar á málsatvikum,

•           breytingar á framburði í samræmi við væntingar þess sem yfirheyrir sakborninginn,

•           vangeta til að veita staðfestanlegar eða haldbærar upplýsingar um máli

Það er margt sem bendir til þess að játningar í Guðmundar og Geirfinnsmálinu á sínum tíma hafi verið falskar, til að mynda gat einginn af sakborningunum gefið haldbærar upplýsingar um hvar lík mannana væri að finna en þau hafa aldrei fundist. Niðurstöður sérfræðinga sem fengnir voru til að fara yfir málið voru að játningar allra sex sakborninga í málinu hafi verið óáreiðanlegar og að margir þættir hafi spilað þar inn í, til að mynda langar einangrunarvistir, takmarkað aðgengi að lögfræði aðstoð, vettvangsferðir og tilraunakenndar leitir að líkamsleifum mannana, ótti við að gæsluvarðhald yrði framlengt ef rannsakendur væru ósáttir við framburð þeirra ásamt tíðum og óformlegum heimsóknum rannsakenda í klefa sakborninganna. En í upphafi neituðu allir sex sakborningarnir aðild að málinu en við frekari yfirheyrslur fóru þeir að játa. Rannsóknir hafa sýnt að sakborningar eigi það til að breyta framburði sínum þegar þeir sjá ekki tilgang í því að neita lengur. Þá er þrýstingur við yfirheyrslur ásamt hótunum um gæsluvarðhald, talið spila stórt hlutverk í málum þar sem falskar játningar hafa verið staðfestar.

 

Ég vona að þessi stutta færsla hafi veitt smá innsýn í það flókna mál sem falskar játningar eru og ég hvet ykkur eindregið til að lesa ykkur meira til um sefnæmi, minnisvafaheilkenni og falskar játningar ef þetta vakti áhuga ykkar en þessi færsla er engann veginn tæmandi og hægt er að finna fjölmargar rannsóknir og greinar um þetta heillandi viðfangsefni. Þær upplýsingar sem hér hafa komið fram um falskar játningar og Guðmundar og Geirfinnsmálsið er að finna í skýrslu starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið til innanríkisráðherra sem afhent var í innanríkisráðuneytinu hinn 21. mars 2013. En Skýrslan er aðgengileg öllum á vef stjórnarráðsins. 

Thelma Gylfa.