Need A Player Agent


Fylgdu Illverk á samfélagsmiðlum!

Reimleikar á Íslandi

Eru ekki alveg örugglega allir ennþá að ferðast innanlands? Ég er búin að vera að því og fór að velta fyrir mér hvort það væri ekki gaman að taka saman upplýsingar um staði þar sem talinn er vera draugagangur. Ég hef sjálf mikinn áhuga á að skoða eyðibýli og slíkt og því vona ég að þið njótið þess að lesa um staðina og jafnvel fara að skoða!

Hvítárnes:

Hvítárnes, eða nánar tiltekið Hvítarnesskáli austan Hvítárvatns á Kili, er talið vera mjög reimt hús. Skálinn er byggður árið 1930 og er friðaður, en þar er gistipláss fyrir 30 manns og hægt að bóka sér gistipláss inni á vefsíðu þeirra. Margar sögur hafa gengið um reimleika skálans og hvernig hann varð til. Greint er frá í fréttum og viðtölum víða að það séu aðallega karlmenn sem finna fyrir reimleika í skálanum. Þetta er í raun ákveðin koja sem þarf að sofa í, hún er kölluð draugakojan og snýr í öfuga átt við allar aðrar kojur skálans. Þá hefur verið greint frá því að mönnum hafi jafnan verið sparkað úr kojunni, og þeir heyrt umgengnisháfaða m.a. í eldhúsinu þar sem enginn var. Margar umsagnir eru í gestabók skálans frá fólki sem hefur orðið vart við umgang, hávaða og að hlutir séu að færast til. Aðal kenningin er sú að veran sé gráklædd stúlka sem stendur ekki á sama um karlmenn sem dvelja í skálanum, en hún virðist ekki kippa sér  upp við kvenmenn. 

Í sögunni Konan við Hvítárvatn stendur:

“Fáa metra frá skálanum við Hvítárvatn eru fornar tættur. Þar var bær fyrr á öldum er Tjarnarkot hét. Tjárná rennur þar framhjá út í Hvítárvatn. Þjóðsagan segir að á þessum bæ hafi verið piltur og stúlka í tilhugalífi og að stúlkan hafi horfið. Talið var að pilturinn hafi fyrirfarið henni af því að hún var þunguð af hans völdum.”

Það gæti jafnvel útskýrt gremju sem hún ber til karlmanna en ekki kvenmanna. 

Hvítárnesskáli.

Höfði:

Í Reykjavík eru þó nokkur hús sem talinn er vera reimleiki í. Frægast þessara húsa hlýtur þó að vera Höfði, sem reist var árið 1909. Húsið var upprunalega reist fyrir franska konsúlinn á Íslandi en síðar bjó Einar Ben í húsinu. Það var þó ekki fyrr en löngu seinna, eða árið 1950, sem virkilega fór að kræla á draugagang í Höfða, en þá bjó Breski sendiherrann þar. Hann greindi frá því að hann sæi veru á sveimi í húsinu á hverjum einasta degi, sem hann var viss um að væri ekki af þessum heimi. Hann kallaði hana The White Lady. Þetta var farið að fá svo á hann að hann fór fram á að húsið yrði selt, það væri óbúandi þarna af draugagangi. Margir hafa orðið varir við eitthvað á sveimi í Höfða, en reimleikarnir eru helst af tengdir við Einar Benediktsson, skáld. Þá er sagt að honum hafi alltaf fylgt einhver vera, sem ekki allir gátu séð. 

Höfði.

Dillonshús:

Á Árbæjarsafni er hægt að skoða og borða í frægu friðuðu húsi sem fært var á safnið árið 1961, Dillonshús. Húsið var reist af Dillon lávarði fyrir ástkonu sína, Sire, árið 1853. Nákvæmlega öld seinna, árið 1953, átti heima í húsinu fimm manna fjölskylda. Fjölskyldan samanstóð af föður, móður, og þrem börnum á aldrinum 3-6 ára. Fjölskyldufaðirinn, sem var lyfjafræðingur, var mjög veikur á þessum tíma og kominn að endastöð. Þar sem hann gat ekki ýmindað sér að deyja og skilja fjölskylduna sína eftir, ákvað hann að það eina í stöðunni væri að þau færu öll. Hann eitraði fyrir þeim og skildi eftir bréf sem skýrði frá þessu. Greint hefur verið frá því að starfsmenn safnsins hafi oft orðið varir við umgang og óróleika í húsinu. 

Líkhús franska spítalans í Reykjavík:

Kannski betur þekkt sem Tónmenntaskólinn nú til dags stóð eitt sinn franski spítalinn í Reykjavík við Lindargötu. Eitt sinn, þegar spítalinn var starfrækur, var maður sem var ókunnur staðháttum að gangi. Hann hitti konu á vegi sínum og spurði hana hvar hann gæti eitt nóttinni, en hún sagði honum að fylgja sér og fór með hann í líkhús franska spítalans. Hún sagði honum að þar gæti hann sofið á skurðarbekk og hann var mjög þakklátur, þrátt fyrir að vera kalt í húsinu. Rétt eftir að hann festir svefn finnst honum hann heyra hljóð, en honum fannst það vera konan að koma aftur inn. Það telst vera rétt, og hún ræðst á hann. Þau slást alla nóttina þar til hann nær loksins að losna undan og komast út. Það fyrsta sem hann gerði var að fara til lögreglu og tilkynna þessa árás. Þegar lögreglan mætir í líkhúsið að kanna aðstæður finna þau enga konu en hinsvegar fannst lík konu sem hafði dáið daginn áður, liggjandi á gólfinu og greinileg merki um átök. 

Djöflaskipið: 

Eitt sinn var skip á veiði undir Eyjafjöllum en það voru 14 manns um borð. Þrír komust á land áður en skipið sökk og reyndu þeir hvað þeir gátu að kalla eftir hjállp, en öldugangurinn var mikill og engin leið að hjálpa þeim sem eftir sátu. Því sökk skipið og áhöfnin drukknaði. En rétt strax, eftir að áhöfnin var af, snéri skipið við og kom sjálft í land líkt og því væri stýrt. Það stóð svo ósnert í fjörunni þar til næsta veturs, þar sem enginn vildi stíga þar inn. Þegar veturinn kom svo var ákveðið að færa skipið lengra upp á land, nálægt helli sem þar er. Starfsmenn á sveitabænum Steinum, sem er næsti bær við hellinn, sáu alla áhöfnina sem látist hefðu í slysinu, labba á eftir skipinu þegar það var fært. Eftir það stóð skipið í djúpri laut öðrum megin við hellinn. 

Stuttu seinna var bóndi af Rangárvöllum á leið austur undir Fjöll. Það var dimmur morgun og bóndinn reið fram hjá hellinum, en þar liggur vegur. Þegar bóndinn er rétt hjá hellinum mætir hann manni sem hann þekkti ekki. Sá maður bað bóndann um að vera samferða sér, sem hann samþykkti. Maðurinn sagði ekkert fleira en benti bóndanum á að elta sig. Bóndinn eltir en hesturinn hans er ekki svo ánægður með það og virðist vera að streitast á móti. Þegar þeir koma að skipinu sér hann 13 menn standa í kringum skipið. Mennirnir litu illa út og bóndinn fattaði skyndilega hverjir þetta væru. Hann varð mjög hræddur og flýtti sér burt, en heyrði áhöfnina kveða vísu á meðan hann reið upp úr lautinni. Skipið var svo loks höggvið niður í eldvið en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í skipinu, sérstaklega á kvöldin.

Skerflóðs-Móri: 

Eitt sinn var bóndi, á Borg í Hraunshverfi á Eyrarbakka, sem úthýsti dreng sem dvaldi hjá honum. Drengurinn fannst svo drukknaður í Skerflóði, tjörn rétt hjá bænum. Drengurinn fylgdi síðan bóndanum og barnabörnum hans. Móri fluttist seinna með fólki út ættinni austur að Kampholti í Villingaholtshreppi í Flóa. Hann gerði oft vart við sig á undan bóndanum, og var honum stundum hjálpsamur. Á síðari hluta 20. aldar er talið að Móri hafi fengið bíladellu. Hann heldur sig einkum í nánd við Skeiðavegamót á Suðurlandsvegi og tekur sér stundum far með bílum. Talið er að ef illa sé talað um hann inni í bílnum eigi hann það til að skemma vélar eða hjólbarða. Ótrúlega mörg óhöpp og bilanir þóttu verða á þessum slóðum og var ónærgætni þeirra við Móra kennt um. 

Sæluhúsið: 

Við Jökulsá á Fjöllum var hlaðið sæluhús úr steinlímdu grjóti árið 1881. Í kjallaranum var hesthús og svefnloft á jarðhæð. Húsið var hannað af Sigurbirni Sigurðssyni og er talið vera eitt flottasta sæluhús á landinu á þessum tíma. Hinsvegar gátu alls ekki allir notið sín þar, en húsið varð fljótt alræmt vegna draugagangs. Gestir sem sváfu í húsinu heyrðu ýmist högg og hávaða, þeim fannst einhver vera að þreifa á sér og dýr létu illa í húsinu. Stundum fannst fólki líkt og einhver væri að rífa þakið af húsinu. Þetta hús stendur enn þá á sínum stað og er opið gestum á eigin ábyrgð daglega frá 8-18. 

Sæluhúsið.

Hólmakirkjugarður:

Eitt sinn var biskup í kirkjuskoðunarferð á Austfjörðum, og kom þar að Hólmum í Reyðarfirði til þess að gista um nóttina. Um nóttina er búið um hann við hliðina á altarinu, en þegar hann er ný sofnaður vaknar hann við hljóð. Hann sér undan sér kirkjuhurðina opnast og konu koma inn sem stekkur af bekki til bekks þar til hún kemur að fremsta bekk. Þegar hún er lent á fremsta bekk spyr biskup hvað sé þar á ferð og hvað erindið sé. Þá snýr konan við og fer eins til baka og út úr kirkjunni. Biskup hleypur út úr kirkjunni og sér þá veruna hverfa ofan í eitt leiðið í garðinum. Hann tekur nokkra steina og leggur á leiðið til minnis, en fer svo að sofa aftur, ótruflaður. Um morguninn kemur prestur Hólmakirkju og spyr hvernig biskupinn svaf. Hann segir prestinum frá því sem kom fyrir og biður hann um að koma með sér út að leiðinu. Þá spurði biskup hver hvíldi í þessu leiði, sem hann hafði merkt með steinum um nóttina, en prestur segist ekki vita það. Hann segir hins vegar að annar maður sem hefði verið lengur á staðnum gæti kannski svarað því, og kallaði til hans. Maðurinn rifjar upp að þar hvíli stúlka sem enginn vildi hafa eða þekkja, og hún hafi því flakkað á milli manna þar til hún varð úti á Eksifjarðarheiði. Hún hvílir þar enn.

Saurar: 

Á sveitabænum Saurum í Austur Húnavatnssýslu varð mikill draugagangur árið 1964. Málið vakti þjóðarathygli og var meðal annars sagt, með lýsingu á umhverfinu, að hvergi væri líklegra að vofur og afturgöngur myndu bregða á leik. Í grein í Þjóðviljanum sem birtist árið 1983, 19 árum eftir draugaganginn, er farið yfir málið. Þegar líða fór á mars byrjuðu að berast fréttir af undarlegum atvikum á Saurum á Skaga í A-Húnavatnssýslu. Þar köstuðust borð og stólar til, leirtau hrundi úr skápum, rúm hreyfðust og skápar duttu niður. Dögum saman voru blöð og útvarp undirlögð fréttum frá Saurum, en þangað flykktust fréttamenn, miðlar, jarðfræðingar, og veraldleg sem andleg yfirvöld. Málið missti alla athygli svo eins fljótt og það fékk hana og hefur aldrei verið fundið út úr því hvað var á seyði. Talið var að þetta gætu hafa verið Spænskir draugar, en það er vegna þess að Spænskir skipfarar höfðu verið dysjaðir skammt frá bænum á fyrri öldum. Í Tímanum er draugaganginum lýst, og þar segir að 18. Mars árið 1964 hafi húsbóndinn vaknað kl 01:20 við það að borð, sem stóð við stofugluggann, fór á hreyfingu einn metra fram á gólfið. Um svipað leyti og draugagangurinn stóð kom sjö manna hópur frá Sálarrannsóknarfélagi Íslands og hélt miðilsfund á bænum. Lára Ágústsdóttir, miðill, var meðal þeirra sem sat fundinn, en á hann var blaðamönnum ekki hleypt. Hún sagðist hafa séð enskan mann, og taldi að draugagangurinn á bænum væru sjódrukknaðir menn. Hún segir einnig að er þau sátu við borð í húsinu hafi það kippst til líkt og einhver hafi lyft því upp og að á sama tíma hafi ískaldur gustur farið um stofuna. Í Morgunblaðinu segir svo seinna að mikill ókyrrleiki sé enn á Saurum og borðið sem mjög oft kom til sögu á þessum tíma sé nú brotið og ónothæft. Nágrannar hafa sagt frá því að fyrirbærin séu ennþá að ónáða á bænum.

Bærinn að utan.

Teiknað kort af skipulagi hússins.

Bústaðarvegur:

Árið 1994 var greint frá miklum draugagangi sem herjaði á íbúa við Bústaðarveg í Reykjavík. Rætt var við miðil sem kannaði staðinn og íbúa sem lýstu staðfastlega slæma ástandinu í íbúðinni. Einn íbúinn segrir frá því að eitt kvöld, þegar hann kom heim frá miðli, varð allt vitlaust inni í íbúðinni. Hann lýsir ástandinu sem sambland af eldglæringum og norðurljósnum. Hann lýsti því einnig að þetta hefði byrjað þremur árum áður þegar hann hefði byrjað að sjá óskýranlegar myndir fyrir augum sér. Árið 1995 hefði íbúi hússins svo leitað til bresks miðils. Þá hefði þegar ýmislegt gengið á, meðal annars hafi eitthverju verið brugðið um hálsinn á konu hans og þjófarvarnakerfi farið í gang í nærliggjandi verslun. Hann segir ,,Þetta hélt svo áfram í nokkrar nætur, rúmið gekk til og það var hreyfing á öllu hvar sem við settumst niður, sérstaklega ef við vorum að biðja. Í eitt skipti kom þetta að mér og ég reyndi að berjast til baka en brendi mig illa á höndunum´´. Hann hafði sambandi við Sálarrannsóknarfélag Íslands og fékk til sín Njál Torfason að kanna málið. Njáll lýsti ástandinu ,,Þegar ég kom hingað fann ég fyrir fólki hér. Ég fór með fariðvorið og bað það að fara sína leið. Ég sá allar þessar verur en annað slagið var eins og það kæmi rafspenna. Ég fór úr herbegi í herbegi og fór ekki út úr þeim fyrr en ég var búinn að hreinsa hvert einasta eitt og loka þeim. Þá meina ég ekki að loka dyrnum, heldur að hreinsa þau. Eftir að búið var að hreinsa herbegi var eins og hleypt væri loftþrýstingi af manni. Það var eins og maður hafi búið við yfirþrýsting í langan tíma´´. Það vakti athygli á þessum tíma að bæði húseigandi og Njáll teiknuðu sitthvora mynd af verunni og þær pössuðu saman í öllum meginatriðum. Segja þeir aðra veruna á teikningunum fulltrúa hins illa og geta tekið á sig ýmsar myndir. Hin er rauð að lit og er fulltrúi reiðinnar. Bæði Njáll og húseigandi lýstu því að samhliða þessum látum hafi verið mikil orka. Til dæmis hafi húseigandi oft þurft að fara með rafmagnstæki á heimilinu í viðgerð en þegar hann hafi komið að ná í þau hafi hann fengið þau til baka með þeim orðum að ekkert væri að þeim. 

Vogastapi:

Vogastapi er sunnan voga á Reykjanesskaga. Svæðið er þekkt fyrir fallegt útsýni og mikið fuglalíf, en einnig fyrir reimleika. Í gegnum tíðina hafa heyrst margar sögur af dularfullum manni við veginn við Stapa sem er að húkka sér far. Sumir hafa sagt hann halda á mannshöfði. Samkvæmt fólki sem hefur séð hann sest hann upp í bíl hjá þeim sem stoppa fyrir hann en segir ekkert. Hann hverfur síðan upp úr þurru. Heyrst hefur að ekki hafi sést jafn oft til hans eftir að nýja Reykjanesbrautin var lögð.

Austurstræti 8:

Í gegn um tíðina hafa komið fram margar sögur af draugagang í húsinu á Austurstræti 8 í miðborg reykjavíkur. Nú til dags er þar staðsett fataverslunin Gyllti kötturinn. Í ritgerð sem skrifuð er af Önnu Kristínu Ólafsdóttur tekur hún viðtöl við eigendur búðarinnar. Þær segja þar að þær hafi sér dularfulla stúlku sem virðist vera hrekkjótt birtast í stiga verslunarinnar. Stúlkan er ungleg á að líta, líklega um 10 ára aldur, með sítt svart hár og klædd gamaldags fatnaði. Þær segjast einnig finna fyrir nærveru hennar. 

Valdís María