Sture Ragnar Bergwall – Framhald
Heil og sæl kæra Illverk fjölskylda
Í þessari færslu ætla ég að fjalla um hvernig einn stærsti réttfarslegiskandall Svíþjóðar kom til, mál Sture Bergwall betur þekktur sem Thomas Quick. Eins og flestir hlustendur Illverks vita nú þegar þá er mál Sture bæði langt og flókið, því mun ég í raun aðeins stikla á stóru í gegnum atburðarásina og mæli ég því með að þið hlustið á þáttinn um Sture Ragnar Bergwall í áskriftarpakka Illverks.

Hver var Sture?
Sture Bergwall glímdi við geðræna erfiðleika og átti við mikinn fíknivanda að stríða. Hann var í þrígang vistaður á réttargeðdeildinni á Säter, fyrir barnaníð, líkamsáras og rán.
Þegar Sture var vistaður á réttargeðdeild í þriðja skiptið hafði stefna deildarinnar breyst og tekin hafði verið upp samtalsmeðferð sem framkvæmd var af geðlækni undir leiðsögn sálfræðingsins Margit Noirell.
Meðferðin var byggð á þeirri trú Margrit að flest öll geðræn vandamál ættu rætur sínar að rekja til kynferðislegrar misnotkunar í æsku og snérist meðferðin um að endurheimta bældar minningar.
Sture sem var mjög einmanna sótti það stíft að fá að komast í slíka meðferð og þótti meðferð hans ganga mjög vel, hann sagði læknunum það sem hann hélt að þeir vildu heyra og fékk í stað mikla athygli frá starfsfólkinu sem gaf honum einnig mikið magn af ávanabindandi róandi lyfjum ( Benzodiazepam).
En þar sem meðferðin þótti ganga vel og ránið sem hann hafði framið þótti ekki mjög alvarlegt þá stóð til að útskrifa Sture eftir aðeins eitt ár á deildinni, en Sture var ekki tilbúinn til að yfirgefa deildina og því voru góð ráð dýr.
Sture þráði athygli
Sture ákvað að hann yrði að verða enn áhugaverðari sjúklingur og fór að seigja frá bældum minningum sem hann væri byrjaður að endurheimta, minningum af því hvernig hann hefði myrt Johan Asplund, en hvarf Johans var þekkt mál sem Sture hafði lesið um í blöðunum.
Starfsfólkið á Säter gleypti ekki aðeins við þessari frásögn Sture heldur voru þau sannfærð um að mál Sture markaði tímamót í sálfræði. Þó var nokkuð stór galli á gjöf njarðar þar sem lýsingar Sture pössuðu engan veginn við staðreyndir málsins, hann gat til að mynda ekki greint rétt frá því hvernig fórnarlambið hafði verið klætt.
En meðferðaraðilar Stures vildu meina að þetta væri eðlilegt þar sem um endurheimt á bældum minningum væri að ræða og næstu mánuði var meðferðin fólgin í því að “hjálpa” Sture að muna staðreyndir málsins “rétt”.
Sture dregur allt til baka
Þegar leið á meðferðina reyndi Sture að draga í land og hætta við söguna, en meðferðaraðilar Sture trúðu því að mótstaða hans væri til marks um að meðferðin væri að virka og að í raun væri um bældar minningar að ræða.
Starfsfólk Säter hafði svo samband við lögreglu sem rannsakaði málið en rannsakendur málsins sem voru óreyndir í slíkum rannsóknum voru fullvissaðir af meðferðaraðilum Sture að eðlilegt væri að saga hans væri ósamkvæm og ótrúverðug þar sem að um bældar minningar væri að ræða.
Ef þið lásuð fyrstu færsluna mína hér á blogginu um minnið og falskar játningar í tengslum við Guðmundar og Geirfinnsmálið þá hringir þessi fullyrðing meðferðaraðilanna kannski einhverjum bjöllum en eitt af því sem almennt einkennir falskar játningar er vangeta sakbornings til að greina rétt frá málsatvikum auk þess sem minni er ekki eins áreiðanlegt og maður gæti haldið.
Óvenjulegt mál frá A-Ö
Í máli Sture fóru ekki fram hefðbundnar yfirheyrslur heldur voru rannsakendur viðstaddir meðferðtíma þar sem Sture fékk leiðandi spurningar og var spurður aftur og aftur ef svör hans þóttu ekki passa við staðreyndir mála.
Þá fékk Sture sem var fíkill ótakmarkaðan aðgang að róandi lyfjum í gegnum þessa meðferðatíma auk þess sem lesið var í kvíðaeinkenni hans sem vísbendingar um að hann vissi meira en hann gæti sagt frá. Þá var farið með hann í vettvangsferðir og honum sýndar vísbendingar og hann jafnvel látinn endurleika atburði en allt þetta getur ýtt undir að viðkomandi myndi falskar minningar, á endanum var Sture sjálfur farinn að trúa því að hann hefði í raun framið þessi morð.
Sture Bergwall var svo dæmdur sekur fyrir 8 morð, en Sven Christianson minnissérfræðingurinn sem bar vitni við 5 af 6 réttarhöldum yfir Sture var langt frá því að vera hlutlaus þar sem hann hafði komið að meðferð Sture á Säter.
Sven Christianson var einnig skjólstæðingur Margrit Norell til 10 ára en hún hafði leiðbeint geðlæknunum á Säter um meðferð Sture, þá var Margrit einnig að skrifa bók um Sture sem hún taldi vera byltingarkennt tilfelli í sögu sálfræðinnar. En í raun virðist mál Sture Bergwall aðeins vera tilbúningur sem rekja má til hóps af sálfræðingum og geðlæknum sem komu að meðferð hans á réttargeðdeildinni á Säter.
En þó svo að meðferðaraðilar Stures hafi haft mikil áhrif með þeirri trú sinni að í raun væri um bældar minningar að ræða, trú sem má rekja til fyrri kenninga Freud sem hann hafði yfirgefið sjálfur. Þá liggur einnig mikil ábyrgð hjá rannsakendum sem og saksóknara sem virðist hafa leynt upplýsingum varðandi játningar Sture.
Eftir að Sture var dæmdur fyrir morðin var hann tekinn af öllum lyfjum, hann hætti í meðferð, hætti öllum samskiptum sínum við lögreglu og viðurkenndi svo fyrir blaðamanni nokkrum árum síðan að hann væri ekki sekur um þessi morð. Í kjölfarið var Sture sýknaður af öllum 8 morðákærunum.
Ég vona að ég hafi getað varpað einhverju ljósi á þetta flókna mál í þetta stuttri færslu en fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur málið enn frekar eða kanna betur þær kenningar sem voru á bak við meðferð Sture, þá mæli ég með að þið lesið bókina Mannen som slutade ljuga eftir Dan Josefsson, en hann hefur kafað mjög djúpt í allar hliðar á máli Sture Bergwall aka Thomas Quick.

Takk fyrir þetta Thelma þetta var skemmtileg og áhugaverð lesning og varpar nýjum vinkli á þetta mál