Need A Player Agent


Fylgdu Illverk á samfélagsmiðlum!

Óleystar misteríur

Jæja, í dag skulum við fara yfir nokkrar óleystar misteríur sem er gaman (og ærandi) að velta fyrir sér. Ég ætla að stikla á stóru svo ég komist yfir eins mikið og ég get af mínum uppáhalds misteríum en ég set hlekki undir hvert mál ef eitthvað vekur athygli ykkar og þið viljið skoða það betur! Vonandi njótið þið þess að lesa því ég naut þess mjög að taka þetta saman!

Cindy James

Stuttu eftir að Cindy James skildi við eiginmann sinn byrjaði einhver að elta hana og ráðast á hana inni á eigin heimili. Í hvert skipti sem lögreglan kom á staðinn var enginn annar þar nema hún sjálf. Hún fékk símtöl þar sem var hvíslað eða ekkert sagt og fékk sent hótunarbréf.  Stundum var hún marin og eitt sinn var hnífur í gegn um hendina hennar. Yfir þennan tíma fór hún til lögreglu með um 100 sitthvorar frásagnir af áreitni. Þetta gerðist svo oft að lögreglan byrjaði að hunsa símtöl frá henni, en áður hefði verið gerð rannsókn á fyrrverandi eiginmanni hennar sem skilaði engu. Lögreglan hélt því fram að hún væri að skálda þetta allt, skaða sig sjálfa og jafnvel að hún hafi sjálf kveikt í kjallara sínum í einum af þessum atvikum. Sex mánuðum eftir að þetta byrjaði gufaði hún upp en fannst svo látin 2 vikum seinna í yfirgefnu húsi. Búið var að binda hendur hennar og fætur saman fyrir aftan bak og svartur nælonsokkur var bundinn þröngt um háls hennar. Þegar krufning var gerð kom þó í ljós að Cindy hefði látist af of stórum skammti af morfíni og öðrum lyfjum. Þá var gefin út skýrsla sem greindi frá því að dauði hennar hafi verið sjálfsmorð eða slys. Þessu trúa þó alls ekki allir miðað við allt sem áður gekk á.

Til þess að lesa meira um málið (sem ég mæli með að gera) ýttu hér: https://unsolvedmysteries.fandom.com/wiki/Cindy_James

The Circleville letters

Árið 1976 byrjuðu handskrifuð, grafísk bréf að berast íbúum Circleville. Hvert einasta bréf innihélt leyndarmál og persónuleg smáatriði um líf þeirra sem fékk það sent. Einn íbúi smáborgarinnar, Mary, fékk bréf í miklu magni þar sem hún var sökuð um ýmsar slæmar athafnir, meðal annars framhjáhald. Höfundur bréfanna varaði Mary einnig við því í bréfunum að hann hefði verið að fylgjast vel með heimili hennar ásamt ferðum hennar og athöfnum. Hún var orðin skelfingu lostin og reyndi að halda bréfunum leyndum, þangað til að eiginmaður hennar, Ron, fór að fá bréfsendingar líka.  Árásinrnar á fjölskylduna héldu áfram, stór veggspjöld birtust meðal annars víða um bæinn þar sem dreift var sögusögnum um 12 ára barn þeirra. Einn daginn, árið 1977, yfirgaf Ron húsið eftir að hafa fengið símtal frá þeim sem hann hélt að væri að skrifa bréfin. Nokkrum mínútum seinna fannst hann látinn á bak við stýrið á bílnum sínum, sem var klesstur á tré. Við nánari fyrirgrenslan kom í ljós að Ron var með þó nokkurt magn af áfengi í blóðinu og því var dauðinn skráður sem slys. 

Bréfin byrjuðu fljótlega að berast aftur og í þetta skiptið var verið að ásaka lögreglustjórann um það að hylma yfir sannleikann um dauða Ron. Áreitið hélt áfram, að þessu sinni birtust skilti með hótunum á götum borgarinnar. Einn daginn ákvað Mary að fara og fjarlægja skiltin, en þegar hún tók eitt þeirra niður fann hún byssu í kassa. Byssan var sett upp til þess að skjóta hvern sem tæki skiltið niður, en gildran virkaði ekki sem skildi. Þegar skráningarnúmer byssunar var skoðað kom í ljós að Paul Freshour, mágur Ron, var eigandi hennar. Hann hélt því þó alltaf fram að henni hafi verið stolið. Þrátt fyrir það fékk Ron 25 ár í fangelsi, en þegar hann var þar héldu bréfaskrifin áfram og hann fékk sjálfur send bréf. Hann var þá settur í einangrun en þrátt fyrir það fengu íbúar Circleville ennþá send bréf. 

Hundruð íbúa fengu áfram persónuleg bréf, þar til árið 1994 þegar allt stoppaði skyndilega. 

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér: https://unsolvedmysteries.fandom.com/wiki/Circleville_Writer

Týndu vitaverðirnir

Í Skotlandi er klasi eyja sem enginn býr á. Þessar eyjur eru kallaðar The Flannan Isles og stærst þeirra er eyjan Eilean Mor. Efst á þeirri eyju er viti sem þekktur er undir nafninu The Flannan Isles lighthouse. Vitinn var byggður árið 1899 og um ári seinna hurfu þaðan þrír menn. Þessir menn voru starfsmenn vitans og þeir fóru þangað þann 7. desember 1900. Vinnutörnin átti að vera tvær vikur en þegar bátur kom til að sækja þá voru þeir horfnir. Engin ummerki voru um mennina og vitinn var læstur, sem var óvanalegt. Þegar komið var inn í vitann var tekið eftir því að klukkan var ekki í gangi, það var ekki eldur í eldstæðinu og ummerki sýndu að ekki hafði verið eldur þar í nokkra daga og það var búið að bera fram mat, en hann var ósnertur. Enginn veit hvað varð um þessa menn.

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

Sodder börnin

24. desember 1945 brann hús Sodder fjölskyldurnar um miðja nótt. Níu af tíu börnum þeirra voru heima á þessum tíma en foreldrarnir og fjögur af níu börnunum sluppu út. Lík hinna fimm barnanna hafa aldrei fundist þó svo að eldurinn sem brenndi húsið hafi ekki verið nægilega heitur til þess að brenna lík þeirra. Foreldrar barnanna héldu því fram að börnin væru enn á lífi það sem eftir var, en til stuðnings þessa hafa þau bent á ýmsar óvenjulegar kringumstæður fyrir eldsvoðann og á meðan á honum stóð. Fjölskyldufaðirinn trúði því til dæmis ekki að eldurinn hafi ekki átt sér uppruna í rafmagnskerfi hússins líkt og slökkvuliðið hélt fram, en hann hefði látið gera það upp nýlega fyrir eldinn. Hann og eiginkona hans trúðu því staðfastlega að einhver hafi kveikt í húsinu, sem leiddi til kenninga um að börnin hefðu verið tekin af Sicilian mafíunni. Margar kenningar eru til um þetta mál og ég mæli eindregið með því að þið kynnið ykkur það betur, það er mjög áhugavert.

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

https://en.wikipedia.org/wiki/Sodder_children_disappearance

Asha Jaquilla Degree

Asha Jaquilla Degree fæddist þann 5. ágúst árið 1990. Snemma í morgunsárið þann 14. febrúar árið 2000, þegar hún var 9 ára gömul, hvarf hún frá heimili sínu. Asha pakkaði í tösku, yfirgaf fjölskyldu sína og heimili og byrjaði að ganga meðfram þjóðveginum þrátt fyrir mikinn storm. Nokkrir bifreiðamenn sáu hana ganga meðfram veginum en þegar einn þeirra snéri sér við og reyndi að nálgast hana hljóp hún út af vegkantinum og inn í nærliggjandi skóglendi. Seinna um morguninn uppgötvuðu foreldrar hennar að hún væri farin og enginn hefur séð hana síðan. Mikil leit hófst samdægurs þar sem fundið var eitthvað af munum hennar nálægt skóglendinu þar sem hún sást seinast. Einu og hálfu ári síðar var taskan hennar, sem var enn full af dótinu hennar, fundin á byggingarsvæði nálægt þjóðveginum. Þó svo að kringumstæður hvarfs hennar bentu í fyrstu til þess að hún hafi hlaupið á brott fannst engin góð ástæða fyrir því að svona ung stelpa myndi flýja að heiman. Getgátur fóru að myndast um að henni hefði verið rænt. Árið 2015 gekk alríkislögreglan (FBI) til liðs við sýsluna í endurupptöku málsins og bauð verðlaun fyrir upplýsingar sem gætu hjálpað til við að leysa málið.

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

https://en.wikipedia.org/wiki/Disappearance_of_Asha_Degree

The Boy in the Box

,,Drengurinn í kassanum´´ er nafn sem var gefið ótilgreindum 4 til 6 ára dreng sem fannst í bassinetkassa í Philadelphiu árið 1957. Lík drengsins fannst vafið inn í teppi, í skógi í Philadelpia, í kassa sem hafði einu sinni innihaldið bassinet körfu. Hárið á drengnum hafði nýlega verið klippt, líklega eftir dauðann þar sem klumpar af hárinu voru fastir við líkið. Líkami drengsins bar merki um verulega vannæringu og ör á ökkla, nára og undir höku. Drengurinn hefur aldrei verið greindur en mikið af kenningum eru til um hver hann gæti verið. 

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

https://en.wikipedia.org/wiki/Boy_in_the_Box_(Philadelphia)

Ken McElroy

Ken Rex McElroy (fæddur 1. júní árið 1934) var íbúi í Skidmore, Missouri. Hann var þekktur víðsvegar um bæinn fyrir mikið áreiti á íbúum þess. Í gegn um ævi hans var hann sakaður um tugi glæpa, meðal annars líkamsárásir, ofbeldi gegn börnum, nauðgun, innbrot og bruna. Alls var hann ákærður 21 sinnum en hann slapp við sakfellingu í öll skipti nema eitt. Árið 1981 var Ken sakfelldur fyrir að hafa skotið og sært 70 ára gamlann mann sem átti matvöruverslun bæjarins. Ken áfrýjaði dóminn, sem gekk upp, og var látinn laus. Eftir að hann var látinn laus hélt hann áfram að áreita íbúa Skidmore og manninn sem hann skaut. Íbúar Skidmore höfðu mikla samúð með eiganda matvöruversluninnar, en Ken hótaði honum til dæmis með byssu eftir að hann var látinn laus. Daginn eftir að Ken hótaði manninum með byssu var hann skotinn til bana í björtu dagsljósi. Ken sat ásamt konu sinni í bílnum sínum á aðalgötu í Skidmore. Hann varð fyrir skotum úr að minnsta kosti tveimur mismunandi byssum, fyrir framan um það bil 30-40 manns. Hingað til hefur enginn verið ákærður í tengslum við andlát McElroy, þar sem bæjarbúar stóðu saman gegn honum í þessu máli. 

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

https://en.wikipedia.org/wiki/Ken_McElroy

Lars Mittank

Þann 30. júni árið 2014 fór hinn 28 ára gamli Lars Mittank til Búlgaríu í frí með vinahópi sínum. Stuttu seinna, eða 6. júlí, lenti Lars í átökum við fjóra ótengda menn eftir ágreining um fótbolta. Slagsmálin urðu til þess að Lars hlaut rof í eyrnatrommuni, og því ráðlagði læknir honum að fljúga ekki vegna meiðsla hans. Sami læknir vísaði Lars síðar á sjúkrahús. Vinir Lars vildu vera hjá honum á meðan hann var á sjúkrahúsinu en Lars þverneitaði og krafðist þess að það væri í lagi að hann væri einn. Lars varð því eftir í Búlgaríu án vina sinna og skráði sig inn á hótel. Degi eftir að vinir hans fóru aftur til baka fór Lars að haga sér einkennilega. Til eru myndbönd úr öryggiskerfi hótelsins að honum þar sem hann lítur út fyrir að vera mjög hræddur og ófsóknarkenndur. Á meðan hann var á hótelinu hringdi Lars í móður sína. Hann hvíslaði að henni að fjórir menn væru að reyna að drepa sig og að hún ætti að loka kreditkortinu hans. Lars sást seinast á flugvellinum Varna í Búlgaríu. Hann sást á öryggismyndavélum á flugvellinum hlaupa í burtu frá einhverjum eða eitthverju. Þegar hann var fyrir utan flugvöllinn sást hann klifra yfir girðingu, hlaupa inn í tún og hverfa inn í nálægt tún fullt af sólblómum. Hann hefur ekki sést síðan.

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

https://en.wikipedia.org/wiki/Disappearance_of_Lars_Mittank

The Lady of the Dunes

Þann 26. júlí árið 1974 var 9 ára stúlka á gangi með hundinn sinn þegar hún rakst á lík. Líkið var af konu sem er enn ógreind. Tvö sett af fótsporum leiddu upp að líkinu og hjólför fundust 50 metrum frá vettvangi. Talið er að konan hafi látist tveimur vikum áður en lík hennar fannst. Þegar líkið var uppgötvað lá hún með andlitið niður á teppi. Engin merki voru um átök sem leiddi til kenningu þess efnis að hún hafi annað hvort þekkt árásamann sinn eða verið sofandi þegar að hún dó. Blár klútur og samanbrotnar gallabuxur voru einnig undir höfði hennar. Konan var með sítt, brúnt eða rautt hár, sem var dregið aftur í tagl með gulllitaðri teygju. Táneglur hennar voru lakkaðar bleikar. Lögreglan ályktaði að konan væri um það bil 168cm á hæð og 66 kíló að þyngd. Eitthvað af tönnum hennar höfðu verið dregnar úr en þær sem eftir voru sýndu ummerki þess að hafa hlotið töluverða tannlæknameðferð. Báðar hendur hennar vantaði á búkinn og einn handlegg. Flestar heimildir greina frá því að hún hafi verið um 25-40 ára þegar hún lést. Haus konunnar var mjög laus á búki hennar og önnur hlið höfuðsins hafði verið kramin með einhverskonar verkfæri. Þessir höfuðáverkar voru útskurðaðir sem dánarorsök hennar. Merki voru á líkinu um kynferðisofbeldi. Konan var jarðsungin í október árið 1974. Árið 2014 söfnuðu rannsóknaraðilar málsins fjár fyrir nýrri kistu, líklega vegna þess að upprunalega þunna málmkistan var farin að ryðga og molna. Málið er enn óleyst og ekki enn komið í ljós hver konan er. 

Til þess að lesa meira um málið ýttu hér:

https://en.wikipedia.org/wiki/Lady_of_the_Dunes

Ég veit að margir hafa óbeit á óleystum málum en stundum er gaman að velta fyrir sér hvað gæti hafa gerst og að lesa kenningar um málið. Ég eyði oft klukkutímum saman í að lesa Reddit þræði um óleyst mál og þar eru margar spennandi kenningar að finna. Ég mæli með að prófa, þó þú haldir að þú þolir ekki óleyst mál!

Valdís María
Pistlahöfundur hjá illverk.is