Stockholm Syndrome
Ég býst við því að flestir hafi heyrt hugtakið Stockholm Syndrome á einhverjum tímapunkti. Ég held samt að margir hafi líka heyrt það án þess að vita nákvæmlega út á hvað það gengur og hver upprunasaga þess er. Ég er hér til þess að fræða ykkur lítillega um málið.
Hvaðan kemur hugtakið upprunalega?


Það var þann 23. ágúst 1973 sem Svíinn Jan-Erik Olsson gekk grímuklæddur inn í Kreditbanken, einn stærsta banka Stokkhólms, með vélbyssu undir jakkanum. Hann tók fjóra starfsmenn bankans í gíslingu og krafðist þess að vinur hans, Clark Olofsson, sem sat inni á þeim tíma, yrði sleppt út og færður í Kreditbanken til hans ásamt 3 milljónum í Sænskum krónum. Þessu var fylgt eftir og Olofsson var hleypt til Olsson.
Olofsson var síbrotamaður sem hafði framið nokkur vopnuð rán og ofbeldisglæpi, hið fyrsta þegar hann var einungis 16 ára gamall. Þegar á bankaráninu stóð skaut Olsson mörgum sinnum að lögreglunni og særði m.a. tvo lögreglumenn. Olsson og Olofsson héldu gíslunum föngum í sex daga, frá 23-28 ágúst, í einni af hvelfingum bankans.
Á meðan á þessu stóð mynduðust ósamrýmanlegtengsl á milli Olsson, Olofsson og gíslanna. Eitt gíslana sagði meira að segja, í símtali við Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, að hún treysti föngurum sínum til hins fyllsta en að hún óttaðist að hún myndi deyja í árás lögreglu á bygginguna. Þegar gíslunum var sleppt vildi ekkert þeirra bera vitni á móti mönnunum sem héldu þeim föngum, heldur fóru þau að safna pening til þess að leggja í lið við lögmannskostnað Olsson og Olofsson og hjálpa til við að verja þá.
Nils Bejerot, Sænskur afbrotafræðingur og geðlæknir, skilgreindi hugtakið fyrstur manna eftir að lögreglan í Stokkhólmi bað hann um aðstoð við að greina viðbrögð fórnalambanna við bankaráninu og stöðunni sem þau voru í. Bejerot lýsti viðbrögðum gíslanna sem afleiðingu þess að hafa verið heilaþvegin af Olsson og Olafsson. Hann kallaði það Norrmalmstorgssyndromet eða ´´Norrmalmstorg heilkennið´´, en það varð síðar þekkt utan Svíþjóðar sem Stockholm Syndrome eða Stokkhólmsheilkenni.
,,Það var gíslunum að kenna. Þau gerðu allt sem ég sagði þeim að gera. Ef þau hefðu ekki gert það væri ég kannski ekki hérna núna. Afhverju réðst ekkert þeirra á mig? Þau gerðu það erfitt að drepa sig. Þau fengu okkur til að halda áfram að búa saman dag eftir dag, eins og geitur, í þessum óhreinindum. Það var ekkert annað að gera en að kynnast.´´
Segir Olsson síðar í viðtali
Hvernig gerist þetta?
Sálfræðingar sem hafa rannsakað heilkennið telja að sambandið skapist upphaflega þegar gíslinu er hótað eða lífi þess er ógnað en því er síðan hlíft. Léttir fangans við það að ógnin af dauða sé ekki lengur til staðar breytist yfir í þakklæti í garð þess sem hefur hann í gíslingu fyrir að hafa hlíft lífi sínu. Eins og ránið í Stokkhólmi sannar tekur það aðeins nokkra daga fyrir þetta samband að myndast. Þetta sýnir að löngun fangans til þess að lifa af er mun sterkari tilfinning en hatrið í garð manneskjunnar sem skapaði aðstæðurnar. Með tímanum koma sum fórnalömb þessa til með að þróa jákvæðar tilfinningar gagnvart þeim sem heldur þeim í gíslingu. Þeim getur jafnvel farið að líða eins og þau deili sameiginlegum markmiðum og skoðunum og líkar illa við alla sem reyna að hjálpa þeim úr aðstæðunum.
Lífsviljinn er kjarni málsins þegar skoðað er Stockholm Syndrome. Þolendurnir búa við þvingað ósjálfstæði og túlka því sjaldgæfar og litlar góðvildir í hræðilegum aðstæðum sem góða meðferð. Þolendurnir fara því líka að vera á varðbergi gagnvart þörfum þess sem heldur þeim föngum og skapa sálræn tengsl á milli hamingju gíslatökumanneskjunar og þeirra eigin. Eftir að þetta samband er myndað kemur annað sjónarhorn inn í spilið, en þá einkennist heilkennið ekki aðeins af jákvæðu sambandi á milli fanga og fangara heldur einnig af neikvæðu viðhorfi fyrir hönd fangarans gagnvart yfirvöldum sem ógna sambandinu á milli þeirra. Neikvæða afstaðan er sérstaklega kröftug þegar gíslið þjónar engum tilgangi fyrir gíslatökumanneskju nema þá sem ákveðin ´´skipti´´ fyrir þriðja aðila.
Á 21. öldinni hafa sálfræðingar aukið skilning sinn á Stokkhólmsheilkenni og gert sér grein fyrir því að heilkennið eigi ekki bara við þegar um gíslatöku er að ræða. Aðrir hópar, þar á meðal fórnalömb heimilisofbeldis, meðlimi í sértrúarsöfnuðum, stríðsfangar o.fl. hafa nú verið sagðir geta upplifað heilkennið líka.
Margir sálfræðingar og heilbrigðisstarfsmenn líta á Stokkhólmseinkenni sem bjargráð eða leið til þess að hjálpa þolendum að takast á við áfall ógnvekjandi aðstæðna.
Önnur dæmi um Stokkhólmsheilkenni

Mary McElroy var rænt frá heimili sínu árið 1933, 25 ára að aldri, af fjórum mönnum sem héldu byssu að henni, kröfðust þess að hún fylgdi þeim, fóru með hana í yfirgefinn bóndabæ og hlekkjuðu hana við vegg. Hún varði mannræningja sína þegar henni var sleppt og útskýrði fyrir yfirvöldum að þeir væru bara viðskiptamenn. Hún hélt síðan áfram að heimsækja fangamenn sína á meðan þeir sátu inni. Hún framdi að lokum sjálfsvíg og skildi eftir bréf með eftirfarandi texta: ,,Mannræningjarnir mínir fjórir eru líklega einu manneskjurnar á jörðinni sem líta ekki á mig sem algert fífl. Þið hafið dauðarefsinguna ykkar núna – þannig vinsamlegast gefið þeim tækifæri á að lifa.´´

Natascha Kampusch var rænt árið 1998, 10 ára að aldri, af Wolfgang Priklopil. Hann geymdi hana í einangruðu, dimmu herbegi undir bílskúrnum sínum. Átta árum eftir að henni var rænt slapp hún og í kjölfarið svipti Priklopil sig lífi. Eftir lát Priklopil geymdi Kampusch plastaða mynd af honum í veskinu sínu. Kampusch á nú húsið sem henni var haldið í af Priklopil og hefur sagt í viðtölum að hún keypti húsið til þess að vernda það gegn skemmdarverkamönnum og að það yrði rifið niður. Í viðtali við The Guardian árið 2010 sagðist Kampusch ekki vera með Stokkhólmsheilkenni og útskýrði að það hugtak tæki ekki tillit til skynsamlegra ákvarðana sem fólk tæki í sérstökum aðstæðum. Hún sagði:
,,Mér finnst mjög eðlilegt að þú aðlagir þig til að samræmast við mannræningjann, sérstaklega ef þú eyðir miklum tíma með viðkomandi. Þetta snýst um samkennd, samskipti. Að leita að eðlilegum ramma innan þessa aðstæðna er ekki heilkenni, heldur tækni til þess að lifa af.´´
Segir Natacha Kampusch

Patty Hearst, barnabarn útgefandans William Randolph Hearst, var tekin og haldið í gíslingu af Symbionese Liberation Army árið 1974. Hún var tekin upp þar sem hún sagðist fordæma fjölskyldu sína sem og lögregluna og sást síðar vinna með SLA við að ræna banka í San Francisco. Hún sagði opinberlega frá samúðarkennd sem hún fann fyrir í garð SLA og sagðist einnig styðja það sem samtökin stóðu fyrir. Eftir handtöku sína árið 1975 virkaði beiðni frá lögmanni hennar um að Stokkhólmsheilkenni yrði tekið til skoðunar ekki sem viðeigandi vörn fyrir dómstólum. Sjö ára fangelsisdómur hennar var síðar mildaður og að lokum var henni náðað af Bill Clinton, forseta á þeim tíma, sem var tilkynnt að hún starfaði ekki af frjálsum vilja þegar glæpirnir fóru fram.

Colleen Stan var á leiðinni í heimsókn til vinar síns í Suður-Kaliforníu árið 1977 þegar henni var rænt af Cameron og Janice Hooker. Colleen var neydd til þess að búa í viðarboxi undir rúmi þeirra í sjö ár, en á þeim tíma var hún ítekað pyntuð af Cameron og neydd til þess að lifa lífi sínu sem einskonar þræll. Jafnvel þó að hún hafi fengið að umgangast Janice og heimsækja móður sína í eitt skipti hélt hún áfram að búa í boxinu og reyndi ekki að flýja. Hún var að lokum frelsuð af Janice, sem bað Colleen um að segja ekki frá misnotkuninni, þar sem Janice var að reyna að hjálpa Cameron að verða betri maður. Colleen varð að óskum Janice og þagði alveg þangað til að Janice ákvað loksins að segja lögreglu sjálf frá því sem hafði gengið á.
Er möguleiki á bata? Að jafna sig á Stokkhólmsheilkenni felur venjulega í sér geð- eða sálfræðiráðgjöf, þar sem þolenda er hjálpað við að átta sig á því að hegðun þeirra, gjörðir og tilfinningar stafa af mannlegri eðlishvöt til að lifa af. Ferlið við bata felur í sér að koma þolendum aftur inn í daglegt, “venjulegt” líf, þar á meðal að hjálpa þolendum að læra hvernig þau geta dregið úr hegðun sem byggist einungis á þessari eðlishvöt sem segir þeim að þau þurfi að lifa af.
Eydís María
Pistlahöfundur hjá illverk.is