Need A Player Agent


Fylgdu Illverk á samfélagsmiðlum!

Heil og sæl, mig langar til að þakka ykkur fyrir frábærar viðtökur, ótrúlega gaman að fá svona jákvæð viðbrögð við þessum færslum!

Ég hvet ykkur endilega til að senda mér póst á Instagram (thelmagylfa) eða pósta í Illverk grúppuna á Facebook ef þið eruð með tillögur af einhverju sem þið viljið að ég taki fyrir hér á blogginu. Það er svo ótrúlega margt áhugavert sem hægt er að skrifa um að ég átti erfitt með að velja eitthvað eitt en ég ákvað að taka fyrir eina frægustu sálfræði tilraun allra tíma, The Stanford prison experiment sem framkvæmd var af Philip Zimbardo árið 1971. Það hafa eflaust margir heyrt um þessa tilraun og hefur meðal annars verið gerð bíómynd um hana en ég ákvað samt að henda í eina færsla um það hvernig niðurstöður hennar tengjast raunverulegu máli frá árinu 2004.

Innan flestra hópa finnast vel skilgreind félagsleg hlutverk, en þessi hlutverk endurspegla sameiginlegar væntingar hóps um hvernig ætlast er til að meðlimir hópsins hegði sér. Þessi Hlutverk tilgreina hvernig ákveðnir einstaklingar innan hópsins sem gegna ákveðinni stöðu eigi að hegða sér, ef við hugsum um vinnustaði þá höfum við líklega flest ólíkar væntingar til yfirmanns og annara starfsmanna. Þessi félagslegu hlutverk eru mjög gagnleg því þau gera okkur kleift að áttu okkur á því hverju við megum búast við af öðru fólki í tilteknum aðstæðum. 

Þessum hlutverkum getur þó fylgt ákveðinn fórnarkostnaður, en einstaklingar geta lifað sig svo sterkt inn í hlutverk sitt að þeir hreinlega týni sjálfum sér. Besta dæmið um slíkt er líklega The Stanford prison experiment sem var tveggja vikna löng sálfræðileg rannsókn þar sem nemendum var tilviljunarkennt skipt í tvo hópa, annar hópurinn fékk hlutverk fangavarða og hinn hópurinn fékk hlutverk fanga í “fangelsi” sem sett hafði verið upp í kjallara í Stanford Háskólans.

Það er auðvelt að ímynda sér að þessi hlutverk hafi nú ekki verið mjög mikilvæg þar sem allir vissu að aðeins væri um tilraun að ræða og nemendurnir væru að þykjast vera fangar og fangaverðir. Hinsvegar komust Philip Zimbardo og samstarfsmenn hans að því að svo var ekki. Þeir höfðu áætlað að fylgjast með nemendunum í tvær vikur til að sjá hvort þeir færu að lifa sig inn í hlutverkin, en eftir aðeins sex daga varð að stöðva tilraunina þar sem flestir varðanna voru farnir að beita fangana ofbeldi og niðurlægingum. Fangarnir urðu hjálparlausir og hlédrægir, sumir þeirra höfðu reyndar orðið svo þunglyndir og kvíðnir að það hafði þurft að stöðva þátttöku þeirra í rannsókninni áður en tilraunin var alveg stöðvuð. En þó svo að allir vissu að aðeins væri um tilraun að ræða og að fangelsið væri tilbúningur þá lifðu nemendur sig svo sterkt inn í hlutverkin að margir þeirra virtust glata sjálfum sér og siðferðislegum gildum sínum.

En endurspeglar þessi tilraun raunveruleikann ?

Árið 2004 kom í ljós að bandarískir hermenn í Abu Ghraib fangelsinu í Írak höfðu beitt fanga andlegu, kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Almenningur varð hneykslaður þegar myndir af hermönnum voru birtar þar sem þeir höfpu stillt sér brosandi upp fyrir framan nakta íraska fanga og fest niðurlægingu þeirra á filmu.

Þegar við heyrum fréttir af misnotkun og ofbeldi innan ákveðinna starfsstétta eða stofnanna, í þessu tilfelli Bandaríkjahers, þá held ég flest okkar sjái það þannig að það séu alltaf nokkur rotin epli í hverri körfu. En samkvæmt Philip Zimbardo sem framkvæmdi fangelsis tilraunina í Stanford þremur áratugum áður er margt sameiginlegt með Stanford tilrauninni og því sem átti sér stað í Abu Ghraib. Samkvæmt Zimbardo er ekki um að ræða nokkur rotin epli í körfu heldur er það karfan sem er skemmd og hún skemmir út frá sér.

The scars of Abu Ghraib | Middle East News | Al Jazeera

Líkt og í tilrauninni voru hermennirnir settir í aðstæður sem einkenndust af leynd og ábyrgðarleysi, sem gerði þeim kleift að gera hluti sem þeir myndi undir venjulegum kringumstæðum ekki gera. Herverðirnir í Abu Ghraib voru undir mikilli streitu, þeir fengu ófullnægjandi þjálfun, lítið sem ekkert eftirlit og var falið að setja sínar eigin reglur. En talið er að sú staðreind að fangarnir töluðu annað tungumál auk þess sem flestir þeirra voru naktir vegna skorts á fatnaði innan fangelsisins hafi auðveldað hermmönnunum að hlutgera þá. 

Þetta afsakar þó engan veginn hegðun fangavarðanna og það voru alls ekki allir fangaverðirnir sem komi svona fram, sumir þeirra komu í raun vel fram við fanganna. En eins mikið og við myndum vilja geta vitað fyrir víst að við myndum aldrei hegða okkur á þennan hátt gagnvart öðru fólki þá sýnir Stanford falgelsis rannsóknin skýrt fram á það að flest okkar yrðu fyrir þessum félagslegum áhrifum í ákveðnum aðstæðum og gætum við því framkvæmt hluti sem við teldum okkur annars ófær um að gera.

Ef þið viljið stytta ykkur stundur um helgina, eruð að bilast úr leiðindum sóttkví eða kannski finnst þetta bara áhugavert þá hvet ykkur endilega til að kíkja á kvikmyndina sem gerð var um þessa merkilega tilraun https://www.imdb.com/title/tt0420293/