Need A Player Agent


Fylgdu Illverk á samfélagsmiðlum!

Heilinn í mér virðist vera þannig víraður að þegar ég velti fyrir mér fyrirbærum sem ég skil ekki, þá þarf ég að komast til botns í þeim. Þessi þráhyggja olli því nýverið að ég fann mig knúna til að komast til botns í því af hverju trúðar eru svona óhugnanlegir.

Hugtakið Coulrophobia er notað til að lýsa sjúklegum og hamlandi ótta við trúða. Þó slík fóbía sé frekar sjaldgæf þá er samt mjög algengt að trúðar veki óhug og jafnvel hræðslu hjá fólki. En af hverju?

Ein af ástæðum þess að trúðar vekja oft ótta hjá fólki er án efa sú staðreynd að trúðar hafa að mörgu leyti verið tengdir við skelfingu, bæði í raunveruleikanum sem og í hryllingsmyndum. Bestu dæmin um slíkt eru líklega raðmorðinginn John wayne Gace sem lék trúð í barnaafmælum og hið ógleymanlega sköpunarverk Stephen King , Pennywice.

Þó eru lífeðlisfræðilegar og erfðafræðilegar skýringar á því hvers vegna trúðar vekja hjá fólki óhug. Við mannfólkið stólum mikið á upplýsingar úr umhverfinu. Við erum mjög góð í að lesa svipbrigði fólks og hreyfingar en einnig að bera kennsl á það sem er okkur kunnuglegt. Trúðar eru kunnuglegir því þeir eru manneskjur, en þeir eru samt eitthvað öðruvísi en heilinn í okkur er vanur. Við getum ekki auðveldlega lesið í svipbrigði þeirra þar sem þeir eru oftast með föst svipbrigði eins og skeifu eða bros eða jafnvel með grímu. Það er líka erfitt fyrir okkur að greina tilgang og markmið hreyfinga hjá þeim þar sem hegðun þeirra samræmist ekki alltaf því sem við erum vön. Þegar einhver teygir sig í blóm og réttir í áttina að okkur þá erum við strax búin að túlka hreyfingu viðkomandi á ákveðinn hátt, hann ætlar að rétta okkur blómin eða leyfa okkur að sjá eða þefa af þeim.  Þegar trúður réttir blóm í áttina að okkur þá vitum ekki hvort verið sé að rétta okkur blóm eða hvort við séum að fara að fá vatnsskvettu í andlitið.

Ein kenning sem sett hefur verið fram er að þessi óútreiknanleiki og frávik í andlitstjáningu valdi sjálfkrafa hjá okkur óhug af þróunarlegum ástæðum. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta lesið í  bæði fólk og aðstæður til að lifa af og þegar það bregst þá upplifum við óhug sem gerir okkur líkleg til að forða okkur og þar með líklegri til að lifa af.

En ef það er meðfædd hegðun sem hefur þróunarlegan tilgang að forðast trúða, hvers vegna förum við þá í sirkus ?  Eins lengi og ég man fannst mér trúðar ógeðslegir, en greinilega ekki alltaf. Því ég man eftir að hafa farið í sirkus sem barn og skemmt mér konunglega yfir trúðum sem þar voru með skemmtiatriði. Ég fór því að velta fyrir mér hvort ég væri kannski með einhverskonar áunninn ótta við trúða. En það er eðlilegt að hræðast trúða í daglegu lífi, þó þeir veki ekki hjá manni ótta þegar maður er staddur í sirkus. Því þetta snýst líka um samhengi.  

Ég reikna með því að flestir yrðu skelkaðir ef þeir væru einir á gangi, í myrkri, á afskekktum stað þegar trúður kæmi gangandi að þeim. Þó svo að viðkomandi yrði ekki smeykur við trúð í sirkus. Það hafa ítrekað komið upp tilfelli undanfarin ár þar sem trúðar hafa sést hingað og þangað bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Eitt sinn sást trúður ítrekað reyna að lokka konur og börn inn í skógi vaxið svæði og þurft hefur að læsa skóla þar sem trúður sást sniglast um á lóðinni.

Þessar pælingar mínar um orsakir trúðaótta fóru samt virkilega að ágerast fyrir alvöru þegar ég fann gömul myndaalbúm. Móðir mín virðist hafa haft mikið dálæti á trúðum, enn barnamyndir af mér eru enn í dag geymdar í trúðaalbúmum. Við nánari athugun þá virðist ég líka oft á tíðum hafa verið klædd í eitthvað sem kemst ansi nálægt trúðabúning. Fyrir utan trúða stytturnar sem prýddu barnaherbergið mitt, trúða lampana inni í stofu og trúðarúmfötin sem ég svaf með. svo fátt eitt sé nefnt. En svona til gamans þá skellti ég einni mynd með, af því sem ég fann í fljótubragði af trúðum fortíðar minnar.

í mínu tilfelli virðast allavega greinilegt að óttinn við trúða sé lífeðlis og/eða þróunarlegur frekar en áunninn. því þrátt fyrir að æska mín hafi greinilega verið full af trúðum og ég hafi líklega haft mikið af jákvæðum tengingum við trúða. þá hafa þeir samt vakið hjá mér mikinn óhug í gegnum tíðina.